Sunday, March 30, 2008

Brúðguminn (2008)

Brúðguminn er íslensk gamanmynd, jáhh þetta er semsagt íslensk mynd sem er fyndin og skemmtileg. Hún fjallar ekki um þunglyndi vetursins né hversu leiðinlegt það er að búa á þessu landi. Myndin er hreinræktuð skemmtimynd og hafa slíkar ekki sést hér síðan Sódóma og Líf(Dalalíf, Löggulíf og Nýtt líf) myndirnar voru og hétu. Það gæti reyndar verið að myndir eins og Stella í framboði hafi týnst þarna inn á milli en í guðanna bænum hún kemst nú ekki með tærnar þar sem þessar myndir hafa hælanna.

Þröstur Leó fer af kostum hér stendur hann við eina Taxann í Flatey.

Brúðguminn er lauslega byggð á leikritinu Ívanov eftir Anton Tsjekhov. Það voru þeir kumpánar Baltasar Kormákur og Ólafur Egill Egilsson sem sáu um að sjóða saman handritið og síðan voru öll herlegheitin tekin upp í Flatey.


Myndin fjallar um hann Jón sem leikinn er af Hilmi Snæ sem er okkar besti leikari um þessar mundir. Þessi Jón er að fara að kvænast í annað sinn og er sú heppna helmingi yngri en hann og var auk þess nemandi hjá honum í Háskólanum. Brúðkaupið á að halda í Flatey á Breiðafirði og er sú staðsetning ótrúlega skemmtileg fyrir bíómynd og glæðir myndina skemmtilegu lífi. Tilvonandi tengdaforeldrar Jóns eru ekki parsáttir með þetta og raunar fleiri eyjaskeggjar svo sem presturinn sem er leikinn af Ólafi sjálfum. Þegar allt fer í gang verður Brúðguminn óviss um hvort hann eigi að ganga í gegn með þetta. Inn í myndina fléttast brot úr síðasta sambandi Jóns en þá hafði hann tekið sér ársleyfi frá kennslu og flust með fyrrverandi konu sinni út í Flatey. Allt blandast þetta saman og út kemur einn heljarinnar farsi sem allir eiga að hafa gaman af.


Sumarnóttin í Flatey er greinilega yndisleg.

Skemmtilegustu karakterarnir eru að mínu mati leiknir af Þresti Leó og Ólafi Darra og eiga þeir að vera vinir hans Jóns, einnig kemur presturinn skemmtilega óhress og neikvæður inn í þetta. Í sjálfu sér er Jón ekki mjög fyndin og er hann í þvílíkri tilvistarkreppu alla myndina og heldur sig alveg frá gríninu á meðan hinir halda uppi gríninu. Tökustaðurinn fannst mér frábær eins og ég hef áður minnst á og er það bara eitthvað við þetta rosalega litla samfélag sem heillar mig við myndina.
Ekki slæmt að taka bíómynd við þessar aðstæður

Þeir sem eru áhugasamir um töku myndarinnar og fleira í kringum það bendi ég á síðuna http://www.flateyjarblogg.blog.is./blog/flateyjarblogg/ þar sem Ólafur Egill Egilsson sá um að blogga á meðan tökum stóð og er þar urmull af myndum af tökustað.

Saturday, March 29, 2008

Be kind rewind (2008)

You name it we shoot it!

Þegar ég kíkti á imdb áður en ég fór í bíó á þessa mynd munaði minnstu að ég hætti við för mína. Plottið á imdb fannst mér hreint út sagt fáranlegt og var ég efins um að fara á þessa mynd í bíó. Það sem stendur á imdb.com er.

"A man whose brain becomes magnetized unintentionally destroys every tape in his friend's video store. In order to satisfy the store's most loyal renter, an aging woman with signs of dementia, the two men set out to remake the lost films."
Starfslið leigunnar

Fyrsta línan er allavega ekki að grípa mig alveg nógu vel en ég ákvað þó að dæma innihaldið ekki af kápunni og ákvað að skella mér. Myndin fjallar um tvo félaga sem taka við rekstri vídjóleigu. Eigandi vídjóleigunnar ákvað að skella sér í könnunarferð til þess að sjá hvernig rekstri vídjóleigu sem gekk vel var háttað. Á meðan treysti hann Mike leiknum á Mos Def fyrir leigunni með því eina skilyrði að vinur hans Jerry (Jack Black) mætti ekki koma inn í búðina. Að sjálfsögðu eru skilaboðin eitthvað rangtúlkuð og kemur Jerry inn á leigunni eftir "sabotage" mission á einhverri spennistöð sem staðsett er við hliðiná trailernum hans. Hann viðurkennir það síðan að spennistöðin hafi "sabotageað" honum og varð hann því ansi rafmagnaður og eyðileggur þar af leiðandi allar spólurnar á vídjóleigunni. Nú voru góð ráð dýr og gripu félagarnir til þess að taka upp myndirnar sem kúnnarnir bjuggu til. Myndirnar urðu flestar fáranlega fyndnar og voru að sjálfsögðu gerðar við afar frumstæð skilyrði. Þetta heppnaðist svo vel að kúnnarnir fóru að hrannast upp og peningarnir að flæða í kassann.

Myndin er ótrúlega fyndin og er ótrúlega fáranleg í öllu tilliti. Það sem mér fannst skemmtilegast var hversu fáranlega góð atriðin voru þegar þeir voru að mynda þessar heimagerðu myndir sem þeir unnu að. Lion King, Gostbusters, Rush Hour 2 og allar þessar myndir heppnuðust ekkert smá vel í þeirra endurgerð. Einfaldleikinn var í fyrirrúmi og var teppi með landslagi t.d. notað í háloftasenunum.



Leikstjóri myndarinnar Micheal Gondry er væntanlega þekktastur fyrir mynd sína Eternal Sunshine of the Spotless Mind og Science des rêves, La ( The science of sleep). Ég hef séð þá fyrrnefndu og hafði mjög gaman af. Jim Carrey fór að kostum í eina alvarlega hlutverkinu sem ég hef séð hann í hingað til. Micheal Gondry bregst ekki bogalistin í þessari mynd heldur. Hvað varðar leikaranna þá er nú ekki hægt að setja út á neinn þeirra að nokkru viti. Jack Black er nú eins og hann er kannski svolítið oft í sama karakternum en ég fíla hann og er það líklega það sem hver gerir einfaldlega upp við sig. Mos Def hef ég ekki séð í öðrum myndum en mér finnst hann koma ágætlega út úr þessari.
Ghostbusters eftirherman var óborganleg

Niðurstaðan er sú að Be kind Rewind er snilld sem lætur mann ganga út með bros á vör.

Tuesday, March 25, 2008

The Rainmaker (1997)

The Rainmaker er gerð eftir samnefndri bók eftir John Grisham. Grisham þessi hefur verið iðinn við skáldsagnagerð og virðist sérhæfa sig í bókum um lögfræðinga og réttarsalinn. Sem dæmi má nefna Runaway Jury sem er nokkuð góð mynd að mínu mati, fjallar um kviðdómendur í byssumáli í bandaríkjunum og baráttu eins af kviðdómendunum um að fá byssufyrirtæki loksins sektað. Eitt atriði verð ég líka að minnast á í Runaway Jury og spyr hvort einhver hafi tekið eftir því, upphafsatriðið þegar vaðið er inn með byssuna inn í skrifstofubyggingu fannst mér ótrúlega átakanlegt og vil ég endilega heyra frá einhverjum sem er annaðhvort ósammála mér eða er sama sinnis. Einnig má minnast á The Firm sem er einnig eftir Grisham þar sem Tom Cruise lék aðalhlutverkið, sú mynd nær samt ekki sömu hæðum og bókin sem er mjög góð að mínu mati.

FirmaðRunaway Jury (afsaka það að ég hef enga stjórn á þessum myndum sem fylgja hérna með


En nóg um Grisham vin okkar, víkjum nú að myndinni sem ég sá. The Rainmaker fjallar um þennan týpíska unga lögfræðing sem er að reyna að skapa sér nafn í lögfræði heiminum. Hann byrjar að sjálfsögðu á einhverri crappy firmi sem lendir í klandri og öllum er sagt upp. Hann hefur samt nokkur mál sem hann hefur verið að vinna í og dregur hann einn af lögfræðingunum með sér til hjálpar. Sá mæti maður er leikinn af engum öðrum en Danni DeVito sem er náttla hreinræktaður dvergur og mikill snillingur í þessu lögfræðingahlutverki. Málið sem þeir taka að sér er líka svolítið viðkvæmt og fjallar um strák sem er með hvítblæði. Þetta snýst um það að tryggingafyrirtæki hefur ekki staðið sig alveg nógu vel í því að borga fyrir læknismeðferð sem hefði bjargað honum. Að sjálfsögðu gengur allt vel hjá okkar manni og kemur jafnvel kafli með svona hetjutónlist og látum þar sem allt gengur alveg rosalega vel. Okkar maður vinur síðan málið og tryggingaaularnir þurfa að borga sinn skerf til fjölskyldunnar.





Myndin fær plús fyrir að vera virkilega hress á köflum sem er sjaldgæft með þungar lögfræðimyndir. Einnig fannst mér athugavert að lesa um myndina en hún kemur út skömmu áður en Matt Damon ( sem já fer með aðalhlutverkið, trúi ekki að ég hafi gleymt að segja það) leikur í Good Will Hunting sem er klárlega myndin sem kom honum á kortið. Þegar ég pæli ég því þá eru persónurnar sem hann leikur í þessari mynd og síðan í goodl will hunting alveg frekar líkar. Það gefur auga leið að þeir eru báðir ungir og svona en það er meira því sami lífsþrótturinn og framsæknin og einhvernveginn hæfileikarnir sem drengirnir í þessum tveimur myndum hafa er keimlíkur. Myndin verður á köflum ágætisklisja en það er nú allt í lagi svona inn á milli. Ég var bara ágætlega sáttur með þessa mynd og hún er þokkalegasta afþreying. 7/10 mögulegum.

Monday, March 3, 2008

Oldboy (2003)

Oldboy er Suður-Kóresk mynd framleidd árið 2003. Leikstjóri hennar er Chan-wook Park.
Þessi mynd er sú rosalegasta sem ég hef séð í kvikmyndafræðitímum frá því að ég byrjaði og jafnvel sú rosalegasta sem ég hef einfaldlega séð.


Gægist úr prísund sinni





Núna á að lúska á einhverjum sem gerði manni illt



Myndin fjallar um mann sem er haldið í fangelsi í fimmtán ár af því er virðist engri ástæðu. Áhorfandinn hefur enga hugmynd hvers vegna maður sætir þessari meðferð en seinna ímyndinni kemur það íljós. Það sem gerir þessa mynd að því sem hún er er sagan. Sagan er ein sú geðbilaðasta sem ég hef heyrt og þegar allt er komið fram í myndinni er maður orðinn brjálaður, farinn að reyta hár sitt og hvaðeina. Þessi ótrúlega sterka saga kemur líka öll heim og saman í einu atriði í lok myndar þegar aðalpersónan er látin skoða albúm sem af því er virðist eru myndir af einhverri stúlku. Þar kemst hann síðan að þeirri rosalegu pínlegu staðreynd að hann hafði sængað hjá dóttur sinni að tilstuðlan „vonda kallsins“.

Allt sem tengist á einhvern hátt pyntingum á munni eða tungu er alveg hrikalega erfitt að horfa að mínu mati.

Þó svo að sagan sé svona magnþrungin þá eru fleiri þættir myndarinnar einnig til fyrirmyndar og bar þar mest á leiknum sem mér fannst alveg fruntagóður. Kannski það eina sem fór smá í mig var að vondi kallinn var leikinn af svo ungum manni og svona.. óreyndum að mér fannst og mér fannst svona eins og hann væri ekki þess megnugur að framkvæma það sem hann gerði. Hann er einhver svona pretty boy sem á ótrúlega mikið af peningum og manni finnst ótrúlegt að hann sé ennþá að hugsa um svona smávægilegan atburð eins og þetta atvik íæsku sem hrinti öllu af stað. En sú pæling að hann sé svona hrikalega langrækinn er vissulega kúl útaf fyrir sig

Bardagasenurnar fannst mér einnig ágætar þó ekkert mikið meira en það, flestar voru þær ansi ótrúverðugar og skrítnar, en við verðum að taka með inn íreikninginn að hetjan okkar var búinn að vera að æfa stíft í15 ár fyrir hefnd á einhverjum sem hann vissi ekki einu sinni hver var.




Besta atriðiðið í myndinni var án nokkurs vafa lokaatriðið í háhýsinu þegar okkar maður kemst að hinu eina og sanna. Atriðið er átakanlegt, vitfirrt og ótrúlegt maðurinn gefur sig á vald vonda mannsins og sker af sér tunguna. Þetta var hreint út sagt rosalegt.

Ég gef þessari mynd 8.5/10 mögulegum og á hún það vel skilið.