Sunday, March 30, 2008

Brúðguminn (2008)

Brúðguminn er íslensk gamanmynd, jáhh þetta er semsagt íslensk mynd sem er fyndin og skemmtileg. Hún fjallar ekki um þunglyndi vetursins né hversu leiðinlegt það er að búa á þessu landi. Myndin er hreinræktuð skemmtimynd og hafa slíkar ekki sést hér síðan Sódóma og Líf(Dalalíf, Löggulíf og Nýtt líf) myndirnar voru og hétu. Það gæti reyndar verið að myndir eins og Stella í framboði hafi týnst þarna inn á milli en í guðanna bænum hún kemst nú ekki með tærnar þar sem þessar myndir hafa hælanna.

Þröstur Leó fer af kostum hér stendur hann við eina Taxann í Flatey.

Brúðguminn er lauslega byggð á leikritinu Ívanov eftir Anton Tsjekhov. Það voru þeir kumpánar Baltasar Kormákur og Ólafur Egill Egilsson sem sáu um að sjóða saman handritið og síðan voru öll herlegheitin tekin upp í Flatey.


Myndin fjallar um hann Jón sem leikinn er af Hilmi Snæ sem er okkar besti leikari um þessar mundir. Þessi Jón er að fara að kvænast í annað sinn og er sú heppna helmingi yngri en hann og var auk þess nemandi hjá honum í Háskólanum. Brúðkaupið á að halda í Flatey á Breiðafirði og er sú staðsetning ótrúlega skemmtileg fyrir bíómynd og glæðir myndina skemmtilegu lífi. Tilvonandi tengdaforeldrar Jóns eru ekki parsáttir með þetta og raunar fleiri eyjaskeggjar svo sem presturinn sem er leikinn af Ólafi sjálfum. Þegar allt fer í gang verður Brúðguminn óviss um hvort hann eigi að ganga í gegn með þetta. Inn í myndina fléttast brot úr síðasta sambandi Jóns en þá hafði hann tekið sér ársleyfi frá kennslu og flust með fyrrverandi konu sinni út í Flatey. Allt blandast þetta saman og út kemur einn heljarinnar farsi sem allir eiga að hafa gaman af.


Sumarnóttin í Flatey er greinilega yndisleg.

Skemmtilegustu karakterarnir eru að mínu mati leiknir af Þresti Leó og Ólafi Darra og eiga þeir að vera vinir hans Jóns, einnig kemur presturinn skemmtilega óhress og neikvæður inn í þetta. Í sjálfu sér er Jón ekki mjög fyndin og er hann í þvílíkri tilvistarkreppu alla myndina og heldur sig alveg frá gríninu á meðan hinir halda uppi gríninu. Tökustaðurinn fannst mér frábær eins og ég hef áður minnst á og er það bara eitthvað við þetta rosalega litla samfélag sem heillar mig við myndina.
Ekki slæmt að taka bíómynd við þessar aðstæður

Þeir sem eru áhugasamir um töku myndarinnar og fleira í kringum það bendi ég á síðuna http://www.flateyjarblogg.blog.is./blog/flateyjarblogg/ þar sem Ólafur Egill Egilsson sá um að blogga á meðan tökum stóð og er þar urmull af myndum af tökustað.

1 comment:

Siggi Palli said...

Mjög fín færsla. 8 stig.

Ég er svo sem alveg sammála því að þessi mynd er léttari og gamansamari en maður á að venjast í íslenskum bíómyndum, en á sama tíma er persóna Jóns eiginlega þessi dæmigerði íslenski bíókarakter: þunglyndur aumingi fullur af sjálfsvorkunn. Þetta myndar ákveðna þversögn, og kannski var það þess vegna sem mér fannst myndin ekki virka 100%.