Monday, September 17, 2007

The thing (1982)


Já það var vídeokvöld hjá okkur strákunum síðustu helgi þar sem við þurftum að vakna snemma í esjugöngu daginn eftir. Myndin sem varð fyrir valinu var The thing, þar sem Bóbó (Ingólfur) og Slanmaðurinn (Árni Þór) höfðu talað ansi vel um þessa mynd byrjaði ég að bryðja doritosið með meiri hörku en venjulega þar sem ég bjóst við góðri mynd. Sú varð raunin að svona mestu leyti en þó voru óskir mínar ekki uppfylltar að öllu leyti, vissulega er myndin virkilega spennandi og eru nokkur atriði t.d. þegar verið er að athuga hver er sýktur og hver ekki virkilega spennandi. En sú staðreynd að skrímslið er skoðað aðeins og vel og er ekki mjög ógnvekjandi (það er að segja árásargjarnt) varpar svolítið hulunni af leyndardómnum. Andrúmsloftið sem skapast á þessum afskekkta stað er samt algjör snilld þar sem hver sem er getur verið sýktur og engum er hægt að treysta, eitt var þó ansi pirrandi við myndina var að mér fannst svolítið verið að sýna sama atriðið aftur og aftur þar sem einhver nýr sýktist og drepa þurfti hann, þetta með geimverurnar var alveg góð pæling en það þarf bara ekki að brenna allt þrisvar sinnum þó að flame throwerinn sé ýkt svalur. Myndin sjálf fannst mér þó ansi góð skemmtun og gat ég bæði hlegið og orðið spenntur.

Eitt langar mig samt að minnast á sem tengist myndinni mjög lítið, við strákarnir erum nefnilega allt of oft að lenda í því að DVD diskarnir sem við leigjum séu bilaðir og hökta nú eða bara stöðva í miðri mynd. Þetta kom nú ekki fyrir á gömlu vídjóspólunum, Gynjan (Gunnar Atli) stórvinur okkar og sá okkar sem er með stærsta hausinn (enda ólympíuliðsmaður í eðlisfræði) vill meina að DVD tækið hjá Jýjunni (Jón Gunnar Jónsson) Phillips af einhverri gerð sé of vandað og segir að þessi galli sé þekktur það er að segja að vönduðu tækin séu að lesa diskana of vel, og það að tækin sem fást á 5 k í bónus einfaldlega hoppi yfir svona rispur í disknum, ef einhver veit eitthvað meira um málið væri ég endilega til í að heyra hans álit.

The thing fær 7 metra fyrri ágætis afþreyingu.

Veðramót


Jæja, þá komst maður loksins með hinum kvikmyndnöllunum í bíó, og myndin svo sannarlega ekki af verra taginu. Það sem mér finnst einna sárast við þessa mynd er hversu hræðilega hún hefur verið markaðsett, í fyrsta lagi þá var trailerinn skelfilegur og var eins og þau væru að láta myndina líta út sem þvílíka spennumynd með því að klippa öll öskuratriðin saman og skellt þeim í trailer. Í öðru lagi er veggspjaldið rosalega ógrípandi og fellur algjörlega inn í fjöldann sem er hvimleitt vegna þess að þessi íslenska mynd er klárlega með þeim betri sem gerðar hafa verið. Og í þriðja lagi að Astrópía sé að fá meiri aðsókn sem er skammarlegt fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað út af fyrir sig.

Jæja, þá skulum við aðeins tala um myndina sjálfa, hún byrjaði afar þungt og fannst mér atriðin sem voru tekin upp í Reykjavík ekki alveg nógu góð. Þegar sagan færðist hinsvegar út á land fóru hlutirnir að ganga betur fyrir sig náði maður að skilja/tengjast persónunum virkilega vel sem voru snilldarlega leiknar allar með tölu. Aðeins einn leikari fór í taugarnar á mér í myndinni og var það móðir Söndru en sem betur fer var hún bara í einni senu. Allir ungu krakkarnir stóðu sig með stakri prýði og er greinilegt að leikstjórabörn þjóðarinnar hafa verið vel upp alin. Hilmir Snær lék með sinni kunnu snilld og er greinilegt að leikhúslífið hefur engin áhrif á leik hans í bíómyndum. Söguþráðurinn var spennandi og skemmtilegur, og var maður vel í takti við atburðarrásina allan tímann. Það sem mér fannst einnig skemmtilegt við myndina að hún endaði ekki vel eins og svo margar íslenskar myndir vilja gera. Ég held svei mér þá að þessi komist bara á pall með Englum alheimsins sem bestu íslensku mynd sem ég hef séð, skemmtilegt að báðar enda þær mjög illa, það einhvernveginn virkar bara gerir myndina bara raunverulegri fyrir vikið. Ég held að þetta þurfi bara ekki að vera lengra í bili algjör óþarfi að fara í söguþráðinn eða neitt svoleiðis þar sem allir eru búnir að sjá myndina. Veriði sæl að sinni og já skellum 8.5 metrum af filmu á þetta stykki.

Saturday, September 15, 2007

Superbad (2007)


Ég skellti mér í bíó síðustu helgi og varð myndin Superbad fyrir valinu, þessa mynd hefði ég svo sannarlega aldrei farið en ég átti frímiða þannig að ég ákvað að skella mér. Eins og svo oft áður skellti ég mér á imdb.com áður en ég fór og komst að því að myndin fékk um 8,3 í einkunn og varð ég nokkuð undrandi en dró þá ályktun að fólk væri að missa sig yfir nýrri mynd og enn ættu eftir að koma raunsæju atkvæðin eftir á. Ég fór því á myndina með engar væntingar og viti menn þessi mynd er snilld. Myndin fjallar um þrjá vini sem eru ekki beint beittustu hnífarnir í skúffunni og ævintýri þeirra við að redda sér áfengi. Myndin er stórskemmtileg frá fyrstu mínútu og eru brandararnir alveg drepfyndnir. Ég bjóst satt að segja við einni unglingamyndinni í viðbót en fékk miklu meira fyrir minn snúð ég mæli því eindregið að fara á þessa mynd því alltaf er gaman að fara á myndir og láta koma sér á óvart sem þið kannski lendið ekki í núna vegna þess að þið hafið nú þegar lesið þetta, en myndin fær 7,5 metra af filmu og kalla ég það nokkuð gott fyrir gamanmynd.

Sphere (1998)



Sphere er vísindaskáldsaga sem Björn Brynjúlfur Björnsson plataði okkur strákana til að horfa á síðasta laugardag. Mér finnst oft mjög gaman af vísindaskáldsögum og þá helst þeim sem eiga mjög lítið með raunveruleikan að gera. The Sphere er ekki ein af þeim myndum og var margt sem fór verulega í taugarnar á mér varðandi myndina.

Myndin gerist að langtmestu leyti á 1000 feta dýpi, þar sem hópur vísindamanna á að gera rannsóknir á risastóru geimskipi sem hefur legið þar í hartnær 300 ár. Myndin byrjar ágætlega og byrja hlutirnir að gera ansi fljótlega þar sem ein af persónunum gengur inn í The Sphere. En um leið fer maður að pirra sig á persónunum sem eru ansi grunnar og leiðinlegar og þá sérstaklega persónu Samuel L. sem maður á greinilega að gruna um græsku allt frá byrjun. Einnig eru kvenhlutverk myndarinnar alveg fáranleg og virðist sem maður eigi að vita af einhverjum fyrri atburðum sem eiga að ýta undir spennu á milli þeirra og karlkynspersóna í myndinni. Að sjálfsögðu bjóst maður ekki við neinu meistaraverki enda ríður myndin ekki feitum hesti á imdb.com, en samt sem áður bjóst ég við skemmtilegri mynd sem miðaði aðallega að því að vera fyndin og kannski með smá hrylling við og við. Þetta fannst mér ekki takast nógu vel og því bara get ég ekki gefið myndinni meira en 6 metra af filmu, segjum þetta gott í bili.

Monday, September 3, 2007

Astrópía

Jæja, þá er því aflokið á sunnudaginn fór ég á Astrópíu með vinunum. Myndin hafði fengið ansi góða dóma hér og eftir að hafa heyrt í leikstjóranum sem var ansi hress og skemmtilegur hafði ég bara þónokkrar væntingar til myndarinnar. Gunnar var búinn að vara mig við því að myndin væri með mörgum brellum sem að sjálfsögðu eiga ekkert í stóru brellurnar í stóru myndunum, ég fór því með því hugafari að horfa á hana, fyrsta bardagaatriðið fannst mér bara nokkuð töff mikið um blóðslettur og þess háttar þannig að það setti smá standard fyrir restina af myndinni, en þegar leið á hana var eins og gerviblóðið hefði klárast og bardagasenurnar urðu skelfilega óspennandi og leiðinlegar. Einnig fannst mér leikur á köflum skelfilega slappur eins og þegar Ragnhildur var að kveðja nöllann í eitt skiptið þá átti greinilega allt að verða vandræðalegt en í ofan í það byrjuðu leikararnir að leika alveg skelfilega illa, þetta sama kom fyrir á öðrum stöðum í myndinni þegar fólk þurfti að sýna tilfinningar í leik sínum. Ástarsögurnar sem fléttuðust inn í voru líka alveg hrikalegar og fannst mér alveg óþolandi að sjá Ragnhildi þessa þokkadís verða hrifna af einhverjum nölla sem gat varla tjáð sig og so what að hann þýði einhverjar Ástarsögur. Einu atriði man ég líka sérstaklega eftir það var rosalegur bardagi í gangi og allt í einu kemur bara black screen ég bara hélt að það væri komið hlé eða galli væri í myndinni en nei nei þetta var líklega gert til þess að sleppa því að sýna bardagann algjör skelfing. Þó að ég hafi nú bara hraunað yfir myndina þá voru auðvitað nokkrir ljósir punktar og má þar fyrst nefna Ragnhildi ekki fyrir leik sinn heldur fegurð og síðan línuna " Die Video Die" sem við skemmtum okkur mikið yfir. En Astrópíu ætla ég að gefa 5,5 metra af filmu af tíu mögulegum takk fyrir