Tuesday, April 8, 2008

Stóra planið (2008)


Stóra planið er ný íslensk kvikmynd eftir Ólaf Jóhannesson sem var frumsýnd ekki alls fyrir löngu. Hún fjallar um Davíð vonlausan handrukkara / ljóðahöfund/ aumingi sem leikinn er af Pétri Jóhanni. Davíð ætlar að fara að taka til sín innan klíkunnar sem hann er hluti af. Aðferðir hans eru vægast sagt skrítnar og nær hann einhvernveginn að telja sér trú um það að eitthvað mafíósalegend búi í blokkinni hjá honum. Þegar hann segir yfirmanni sínum frá þessu verður uppi fótur og fit. Yfirmaðurinn er leikinn af meistaranum Ingvari E., klíkan segir Davíði að rannsaka þennan kauða og við það fær Davíð aukna ábyrgð innan klíkunnar. Skulum ekki fara nánar í þá sálmana.

Handrit myndarinnar fannst mér vægast sagt skelfilegt og þessi saga bara ótrúlega léleg og skildi lítið sem ekkert eftir. Þetta fáranlega plott var ekki að grípa mig og var maður alltaf að bíða eftir því að eitthvað gerðist sem gerðist aldrei. Ég fékk smá von um að eitthvað myndi gerast eftir hlé þegar einn maður deyr í símanum með nafn Haralds í höndinni, en neinei ekkert verður úr því og heldur sama lognmollan áfram.

Persónur myndarinnar voru þó oftast vel leiknar og ætla ég að hrósa Pétri Jóhanni fyrri nokkuð góðan og sannfærandi leik, hann passar sig á því að detta ekki í grínið en spurning hvort hann hefði mátt það til að hleypa smá lífi í myndina. Hinar persónur myndarinnar fannst mér margar hverjar klisjukenndar og byrja ég á þjóðverjanum. Einn þjóðverji var í klíkunni og er hann leikinn af Stefan C. Schaefer, ég skil veru hans í myndinni hann á að vera þessi fyndna þjóðverja týpa og er það alveg nokkuð augljóst. Þessu markmiði er alls ekki náð, það er bara eitthvað við hann sem er ekki að virka á mig og restina af salnum sem ég var í. Snati sem er leikinn af Benedikt á að vera þessi harði handrukkari sem er samt veiklulegur inn við beinið, sú persónusköpun tekst heldur ekki því að Benedikt verður einfaldlega kjánalegur þegar svoleiðis hlutverk er sett á axlirnar á honum. Hann er betri þegar hann á annaðhvort að vera fyndinn eða alvarlegur ekki hvoru tveggja.

Hefði getað verið skemmtilegur, en það tókst ekki


Sama má segja um Wolfie, þessi maður hefur nánast allt nema línurnar í skemmtilegan karakter

Þegar ég pæli í því er eins og þessi mynd viti ekki hvort hún eigi að vera alvarleg eða ekki. Ef hún á að vera grínmynd sem hefði vissulega virkað betur í miðað við leikaraval þá tókst henni það alls ekki. Ef hún á hinsvegar að vera alvarlega gangster mynd þar sem menn eru drepnir þá tókst henni það heldur ekki. Út kemur eitthvað miðjumoð sem enginn hefur gaman af og má kannski líkja myndinni við nútíma Bollywood myndir sem eru ætlaðar of stórum markhóp en raunveruleikinn er sá að enginn fílar þær.

Útlit myndarinnar fannst mér nánast það eina jákvæða við hana. Kvikmyndatakan var þokkaleg þó svo að menn hafi alveg misst sig í fókusnum í kirkjusenunni. Þar var Davíð að tala við Hilmi Snæ (sem er btw. mjög nettur í sínu hlutverki) inni í kirkju. Davíð er látinn sitja fyrir aftan Hilmi og þeir tala saman. Myndavélin fókusar á víxl á þá og er það gert alltof oft auk þess sem fókusinn kemur stundum og fljótt eða fer of seint. Þegar þeir halda áfram að tala saman eftir að Ingvar E. slæst í hópinn heldur þessi fókusvitleysa áfram og verður það allt saman rosalega kjánalegt.


Ætli þessi meistari þarna á myndavélinni sé ábyrgur fyrir fókusvitleysinu.

Michael Imperioli gaf myndinni ekki neitt.

Þessi mynd hefur allt sem þarf til þess að vera fyndin, Pétur, Eggert Þorleifs, Erpur, Þjóðverjinn, Benedikt og fleiri eru allt fáranlega fyndnar týpur ef þeir fá að njóta sín. Sú er einfaldlega ekki raunin í þessari mynd, útkoman er viðvaningsleg gamanmynd sem kemur fáum til að brosa.


ps. hversu fáranlegt var þetta concept að Davíð átti alltaf að hafa verið að læra eitthvað drasl kung fu á spólu, ég fæ alveg hroll yfir því hvað það var kjánaleg pæling.


Linkur í heimasíðu myndarinnar þar sem nálgast má trailera og gerð myndarinnar:
www.storaplanid.is

1 comment:

Siggi Palli said...

Ég hafði lúmskt gaman af þessari mynd. Vissulegar er hún langt frá því að vera fullkomin, en það er samt margt sem hitti í mark hjá mér. Ég elskaði t.d. sumar línurnar hans Wolfi, þær voru bara listilega absúrd. Þá hafði ég líka svolítið gaman af allri þessari Kung-Fu pælingu, og fannst hún passa rosalega vel við persónu Davíðs.

Fín færsla, 7½ stig.